Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Breiðablik 1-1 │Stigunum bróðurlega skipt í Vesturbænum

Árni Jóhannsson á Alvogenvellinum skrifar
Atli Sigurjónsson.
Atli Sigurjónsson. vísir/bára
KR og Breiðablik mættust á Alvogen vellinum í Vesturbænum í kvöld í leik sem átti að fara fram í gærkvöldi en blessunarlega var frestað vegna veðurs. Fyrir vikið var hægt að bjóða upp á fínan fótbolta þar sem boltinn gekk milli liðanna en það hefði mátt vera aðeins meiri gæði fram á við til að gera hann að úrvalsskemmtun.

Blikar komust yfir á 65. mínútu þegar Willum Þór Willumsson komst einn í gegn og skoraði með skoti sem hafnaði í varnarmanni og fór yfir Beiti í markinu. Það er þó enginn vafi á því að Willum eigi markið. Aðeins 105 sekúndum seinna voru KR-ingar búnir að jafna og var þar að verki Kennie Chopart. Hann fékk gullfallega sendingu inn í teiginn og náði að leggja boltann framhjá Gunnleifi í markinu og jafna. Pínu einbeitingaleysi gerði vart við sig hjá Blikum sem kostaði þá mark skömmu eftir að hafa skorað sjálfir.

Bæði lið fengu færi til að fá eitthvað meira úr leiknum en honum lauk með stöðunni 1-1.

Afhverju endaði leikurinn með jafntefli?

Bæði lið mættu með ákveðið leikplan í kvöld og náðu að halda sig við það. Bæði vildu vera þétt til baka en KR ætlaði sér greinilega að halda boltanum innan liðsins á meðan Blikarnir ætluðu að nýta sér skyndisóknir þegar KR voru orðnir fleiri á sóknarhelmingi vallarins. Bæði lið framkvæmdu áætlanir sínar mjög vel og því var jafnvægi á hlutunum. Góð færi litu dagsins ljós og má segja að ef heppnin hefði verið með öðru hvoru liðinu meira í liði þá hefðu stigin þrjú endað þeim megin.

Hverjir stóðu upp úr?

Leikurinn var mjög vel leikinn og í góðu jafnvægi eins og áður segir. Kennie Chopart og Willum Þór Willumsson skoruðu mörkin og Gísli Eyjólfsson og Óskar Örn Hauksson sáu um að gefa stoðsendingarnar. Þessir menn stóðu því upp úr í kvöld í leik þar sem erfitt er að gera upp á milli manna.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa að skora. Það er bara þannig, bæði lið fengu góð færi og hefðu með heppninni getað stolið stigunum. Annað gekk vel held ég og þrátt fyrir þungan völl sem gerði menn eilítið þreytta í lok leiks þá var fótboltinn fínn.

Hvað næst?

Það er umferð strax eftir helgi þar sem KR-ingar fara í Grafarvoginn og etja þar kappi á móti Fjölni en aðeins einu stigi munar á þessum liðum í töflunni. Blikarnir fá heimaleik á þriðjudaginn á móti Víkingum og ættu með réttu að geta gert gott mót í þeim leik en þeir eru taplausir og sitja á toppi deildarinnar. Víkingar eru þó engin lömba að leika við og geta gert liðum skráveifu ef ekki er varlega farið.

Maður leiksins var Óskar Örn Hauksson.

Rúnar Kristinsson: Ágætt fyrir deildina að við stoppuðum BreiðablikÞjálfari KR var sammála blaðamanni þegar hann var spurður að því hvort jafnteflið hefði verið sanngjörn niðurstaða.

„Við viljum alltaf vinna á heimavelli en líklega var þetta sanngjörn niðurstaða. Þetta var opinn og skemmtilegur leikur milli tveggja góðra liða og við vorum að spila við það lið sem líklega er best á þessu augnabliki og vorum nokkuð góðir fannst mér. Við sýndum fólkinu okkar allavega að við viljum hafa fyrir hlutunum og leggja okkur fram, fáum eitt stig út úr þessu og verðum við að sætta okkur við það“.

Aðspurður að hvað KR hefði getað gert betur sagði Rúnar:

„Við hefðum getað verið smá heppnir, við stjórnuðum leiknum aðeins betur en þeir og vorum meira með boltann en Blikarnir eru bara stórhættulegir og sérstaklega í skyndisóknum og fengu þeir margar slíkar í fyrri hálfleik þegar við vorum orðnir of margir á sóknarhelmingnum. Þeir fengu þá hættulegri skot fyrir vikið þannig að þetta var fram og til baka í allan dag en þetta hefði mátt detta betur fyrir okkur í dag, við áttum fullt af góðum færum. Heilt yfir held ég að þetta hafi verið skemmtilegur leikur og sanngjörn niðurstaða“.

Rúnar var að lokum spurður að því hvort fólk í Vesturbænum þyrfti að hafa einhverjar áhyggjur af stigasöfnum KR eftir fjórar umferðir en fimm punktar eru komnir í pokann góða.

„Alls ekki, okkur var spáð fimmta sæti og erum við ekkert langt frá því en við viljum meira. Við viljum koma okkur hærra í töflunni en eins og deildin er að spilast þá eru allir að taka stig af öllum og kannski ágætt fyrir deildina að við stöðvuðum Breiðablik svo þeir færu ekki að stinga af. Það er stutt í næstu lið og það er nóg eftir og okkur á eftir að vaxa ásmegin og við höfum trú á því sem við erum að gera og sýndum við það í dag“

Ágúst Þór Gylfason: Góð uppskera eftir fyrstu umferðirnar„Fyrri hálfleikur var frekar rólegur, stöðubarátta og lítið um spil fannst mér. Okkar lið nær ekki að spila boltanum nógu vel þar sem KR beitti löngum boltum. Seinni hálfleikur var fannst mér betur spilaður og við fáum tækifærið sem við nýttum og skoruðum markið en síðan þarf Gísli að fara útaf og það kemur smá einbeitingaleysi í okkur og KR nær að jafna. Í lokin áttum við að stela þessu, við fengum góð færi en boltinn vildi ekki inn“, sagði þjálfari Blika eftir leikinn við KR fyrr í kvöld.

Ágúst var spurður að því hvort hættan væri ekki á að lið hans myndi brotna við það að fá mark í andlitið 105 sekúndum eftir að hafa skorað sjálfir.

„Það kemur ákveðið móment þarna þegar þeir skora rétt eftir að við skorum og þetta er bara reynsla sem liðið mitt þarf að læra af. Gott stig hérna á erfiðum útivelli og við tökum það“.

Að lokum var Ágúst spurður hvort stemmningin væri ekki góð hjá Blikum enda liðið á toppi deildarinnar taplaust.

„Þetta eru fyrstu töpuðu stigin okkar í sumar og við erum náttúrlega fúlir með það en það er gott að vera komnir með 10 stig sem er góð útkoma eftir fjórar umferðir“.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.