Innlent

Þátttaka í nafnakosningu vonbrigði en fyrirsjáanleg

Af 500 greiddum atkvæðum voru 224 seðlar auðir, tæp 45 prósent.
Af 500 greiddum atkvæðum voru 224 seðlar auðir, tæp 45 prósent. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Tæplega helmingur þeirra sem greiddu atkvæði í seinni umferð atkvæðagreiðslu um nafn á sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Garðs völdu þann kost að skila auðu. Tilkynnt var um úrslitin í gær. Í seinni umferðinni var valið á milli þeirra tveggja tillagna sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferð kosningarinnar en það voru nöfnin Heiðarbyggð og Suðurbyggð. Þar að auki var gefinn sá valmöguleiki að skila auðu. Af 500 greiddum atkvæðum voru 224 seðlar auðir eða tæp 45 prósent, Heiðarbyggð hlaut 176 atkvæði eða rúm 35 prósent og Suðurbyggð hlaut 100 atkvæði eða 20 prósent. Þátttaka í seinni umferð atkvæðagreiðslunnar var tæp 19 prósent sem er örlítið minni þátttaka en í fyrri umferðinni.

„Þátttakan er vonbrigði og engin skýr niðurstaða í málinu. Það bíður því nýrrar sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags að ákveða framhaldið“ segir Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. Hann segist aðspurður telja að þessi niðurstaða endurspegli þær umræður sem verið hafa í báðum sveitarfélögunum en borið hefur á nokkurri óánægju með þá valmöguleika sem í boði voru.

„Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart og er í samræmi við umræðuna í báðum byggðarkjörnum“ segir Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, formaður bæjarráðs Sandgerðisbæjar. Hún segir dræma þátttöku í atkvæðagreiðslunni vonbrigði og hafði vonast til að með því að gefa fólki kost á því að skila auðu tækist að auka þátttökuna. Varðandi framhald málsins segir Hólmfríður það auðvitað verkefni nýrrar sveitarstjórnar að ákveða en það sé sín skoðun að í ljósi dræmrar þátttöku sé eðlilegast að taka málið til endurskoðunar. „Fólk er augljóslega að kalla eftir öðrum nöfnum en þeim sem í boði voru og því einsýnt að ný sveitarstjórn hugsi málið upp á nýtt“.

Sameining sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar var samþykkt í íbúa­kosningu í nóvember síðastliðnum og verður kosið í nýja sveitarstjórn í kosningunum 26. maí. Í hinni nýju sveitarstjórn verða níu fulltrúar en voru áður sjö í hvoru sveitarfélagi. Íbúafjöldi í hinu sameinaða sveitarfélagi var 3.348 um síðustu áramót samkvæmt tölum Hagstofunnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.