Innlent

Forseti bæjarstjórnar Sandgerðis fagnar sameiningunni

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ólafur Þór Ólafsson er forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar.
Ólafur Þór Ólafsson er forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. Vísir/Anton/Stefán
Sveitarfélögin Garður og Sandgerði verða sameinuð og tekur hið sameinaða sveitarfélag til starfa í maí á næsta ári. Íbúar sveitarfélaganna kusu um sameininguna í gær og lágu úrslit fyrir laust upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði, kveðst fagna niðurstöðunni. „Næsta vor verður kosið til bæjarstjórnar í nýju sveitarfélagi, sem er það næststærsta á Suðurnesjum. Sveitarfélagið verður sterkara og hefur betri burði til að veita betri þjónustu og standa sterkt að baki þeim framkvæmdum sem sveitarfélagið kemur til með að þurfa að ráðast í,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði.

Íbúar beggja sveitarfélaganna samþykktu sameininguna. Í Garði samþykktu 71,5 prósent íbúa sameininguna og í Sandgerði var sameiningin samþykkt með rúmum 55 prósent atkvæða. Kjörsókn var rúm 50 prósent eða 53 prósent í Garði og 55,2 prósent í Sandgerði.

Níu manna bæjarstjórn verður kosin í maí á næsta ári og í framhaldinu myndi hið nýja sveitarfélag taka til starfa. Íbúar munu þá einnig fá að kjósa um nafn á nýju sveitarfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×