Enski boltinn

Wenger mjög leiður eftir tap Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Vísir/Getty
Arsene Wenger segir að hann sé mjög leiður yfir 2-1 samanlögðu tapi Arsenal gegn Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildar UEFA. Atletico vann í gær 1-0 sigur í leik liðanna og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum, gegn Marseille frá Frakklandi.

Eins og áður hefur verið greint frá mun Wenger láta af störfum sem knattspyrnustjóri Arsenal eftir 22 ár í starfi. Hann vildi enda feril sinn í Lundúnum á jákvæðan máta en verður ekki að ósk sinni.

„Fótboltinn getur verið afar grimmur. Ég er mjög leiður í kvöld,“ sagði Wenger eftir leikinn í gær. Arsenal fékk þó nokkuð af færum til að skora í gær en tókst ekki. Þar með varð endanlega ljóst að Arsenal mun ekki spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Þrátt fyrir allt leyfði Wenger sér líka að vera bjartsýnn fyrir hönd liðsins. „Það eru mjög góðir þættir í okkar liði. Strákarnir munu koma til baka,“ sagði hann.

Arsenal á þrjá leiki eftir á tímabilinu en síðasti leikur liðsins á heimavelli undir stjórn Wenger verður á sunnudag, er Arsenal tekur á móti Burnley.

Síðustu tveir leikirnir verða svo útileikir gegn Leicester og Huddersfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×