Enski boltinn

Gerrard samþykkir að taka við Rangers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard mun taka við Rangers.
Steven Gerrard mun taka við Rangers. Getty
Steven Gerrard mun taka við skoska liðinu Rangers í sumar ef marka má frétt sem birtist á vef Sky Sports í morgun. Gerrard hefur verið orðaður við starfið síðustu daga.

Samkvæmt fréttinni mun Gerrard hafa handsalað samkomulag við forráðamenn Rangers í Lundúnum í gærkvöldi en hann sneri aftur til Englands í gær eftir að hafa horft á Liverpool spila gegn Roma í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudag.

Gary McAllister, fyrrum samherji Gerrard hjá Liverpool, verður aðstoðarmaður hans hjá Rangers. Þeir taka við af Graeme Murty sem var látinn taka poka sinn fyrr í þessari viku.

Gerrard er uppalinn hjá Liverpool og spilaði með liðinu frá 1998 til 2015. Hann hélt svo til Bandaríkjanna og spilaði með LA Galaxy í tvö tímabil áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri aftur til Liverpool. Þá tók hann við þjálfun U-18 liðs félagsins.

Rangers er eitt sögufrægasta félag Bretlandseyja og hefur 54 sinnum orðið Skotlandsmeistari. Vorið 2012 varð félagið hins vegar gjaldþrota en hefur síðan þá aftur náð að vinna sig upp í deild þeirra bestu í Skotlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×