Íslenski boltinn

Aðeins ein kona þjálfar í Pepsi-deild kvenna: „Stelpur þurfa að sanna sig áður en að þær fá tækifæri“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aðeins ein kona þjálfar í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en það er Bojana Besic sem stýrir KR. Hún tók við af einu konunni sem þjálfaði í fyrra, Eddu Garðarsdóttur, fyrrverandi landsliðskonu.

Edda verður sérfræðingur í Pepsi-mörkum kvenna í sumar og í upphitunarþættinum spurði Helena Ólafsdóttir hana Eddu hvernig stæði á því að hlutfallið væri svona lágt.

„Ég held að þetta sé bara svipað í fótboltanum eins og annars staðar á vinnumarkaðnum; það er meira framboð af strákum af stelpum. Hlutfall þeirra sem útskrifast og eru með allar gráðurnar sem þarf til er hærra,“ segir Edda.

„Ungum og efnilegum karlkyns þjálfurum er alltaf hleypt að en alltaf þurfa stelpur að sanna sig áður en þær fá tækifæri,“ segir hún frekar ósátt með þróun þessara mála.

Máni Pétursson, fyrrverandi þjálfari Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna, er ósáttur við þessa staðreynd og bendir á hvernig kynjahlutfallið er almennt í íslenska fótboltanum.

„Þrjátíu prósent af iðkenndum í fótbolta á Íslandi eru konur. Það þýðir að þriðjungur þjálfara í deildinni ætti að vera konur miðað við þá staðreynd,“ segir Máni. „Það er oft þannig að ungum karlkyns þjálfurum í yngri flokkum er hleypt að. Ég fékk nú starfið hjá Stjörnunni,“ segir Máni Pétursson.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×