Íslenski boltinn

Ásdís Karen byrjaði á þrennu og HK/Víkingur lagði FH

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ásdís Karen, til vinstri, og Guðrún Karítas, til hægri, voru báðar á skotskónum í kvöld.
Ásdís Karen, til vinstri, og Guðrún Karítas, til hægri, voru báðar á skotskónum í kvöld. vísir/valur
Valur byrjar Pepsi-deild kvenna af krafti og nýliðar HK/Víkings gerðu sér lítið fyrir og unnu FH á heimavelli sínum i Kórnum í kvöld.

Valur lenti í engum vandræðum með nýliða Selfoss á heimavelli en eftir að fyrsta markið kom opnuðust flóðgáttir fyrir Valsstúlkur. 8-0 urðu lokatölur.

Ásdís Karen Halldórsdóttir sem kom frá KR í vetur skoraði þrjú af átta mörkum Vals, Stefanía Ragnarsdóttir gerði tvö og þær Guðrún Karítas Sigurðardóttir, Crystal Thomas og Elín Metta Jensen eitt hver.

Ungt lið Selfyssinga í miklum vandræðum gegn feyknasterku liði Vals sem er til alls líklegt en Valur er með þrjú stig eftir fyrsta leikinn líkt og Breiðablik sem vann Stjörnuna í gær og HK/Víkingur sem vann FH í kvöld.

HK/Víkingur sem einnig er nýliði í deildinni byrjaði af krafti gegn FH og komst yfir á 25. mínútu er fyrrum FH-ingurinn Maggý Lárentsínusdóttir stangaði boltann í netið. 1-0 í hálfleik.

Heimasttúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn einnig af krafti og tvöfölduðu forystuna með marki frá Stefaníu Ástu Tryggvadóttir. 2-0 og FH með bakið upp við vegg.

Eftir tvöfalda skiptingu Orra Þórðarsonar varð smá líf í FH-stelpum sem minnkuðu muninn á 65. mínútu en það gerði varamaðurinn Birta Georgsdóttir, fædd árið 2002. Fleiri urðu mörkin ekki og sterk byrjun HK/Víkings.

Markaskorarar og úrslit eru fengin frá www.urslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×