Enski boltinn

Morata: Ég hefði átt að hætta að spila

Dagur Lárusson skrifar
Alvaro Morata.
Alvaro Morata. vísir/getty
Alvaro Morata, leikmaður Chelsea, segist sjá eftir því að hafa haldið áfram að spila í vetur þegar hann vissi að hann var að glíma við meiðsli.

 

Eftir að hafa byrjað leiktíðina vel með Chelsea og skorað m.a. þrennu gegn Stoke í október, þá fór Morata í gegnum erfitt tímabil þar sem hann var að glíma við meiðsli í nokkra mánuði og skoraði fyrir vikið ekki mikið af mörkum. Morata hefur nú greint frá því að í langan tíma spilaði hann í raun meiddur.

 

„Þetta hefur verið flókið ár fyrir mig og þetta hefur alls ekki verið besta árið hjá félaginu sjálfu í heild sinni,” sagði Morata í viðtali við Marca.

 

„Ég hef gengnið í gegnum erfiða tíma í ár. Þetta byrjaði allt svo vel, ég var að skora mikið af mörkum og allir elskuðu mig. En þetta er aðeins öðruvísi núna.”

 

„Fólk segir hluti við mig á götum úti, en það veit ekki hvað ég hef gengið í gegnum. Eina manneskjan sem veit það er eiginkona mín.”

 

„Ég hefði frekar viljað togna og verið frá í þrjá mánuði í staðinn fyrir að vita ekki almennilega hvað var að mér. Ég vildi halda áfram að spila og halda áfram að skora, en ég einfaldlega gat það ekki, því ég vissi ekki hvað var að mér.”

 

Morata bætti því við að hann þurfti að fara í nokkur skipti til Þýskalands til þess að fá tímabunda lausn á sársaukanum.

 

„Ég þurfti að fara í nokkur skipti til Þýskalands til þess einfaldlega að fá tímabundna lausn á sársaukanum. Það var mjög vont og síðan þurfti ég að fara strax til baka til London og vera mættur á æfingu daginn eftir. Ég hefði einfaldlega átt að hætta að spila.”

 

Alvaro Morata virðist hafa náð sér að meiðslunum núna og er byrjaður að skora á ný, en hann skoraði meðal annars gegn Southampton í undanúrslitum FA-bikarsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×