Innlent

Afgerandi forysta Samfylkingar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það mun fjölbreyttur hópur fólks hefja störf í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir kosningar ef fer sem horfir.
Það mun fjölbreyttur hópur fólks hefja störf í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir kosningar ef fer sem horfir. Vísir/GVA
Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri könnun sem Fréttablaðið og frettabladid.is hafa gert. Mælist Samfylkingin með 30,5 prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er næststærsti flokkurinn og mælist með 22,4 prósent.

Þriðji stærsti flokkurinn er VG með tæplega 11 prósent. Viðreisn er með rúm 8 prósent, Píratar með 7,5 prósent og Miðflokkurinn með rúmlega 7 prósent. Þá fengi Sósíalistaflokkurinn 3,1 prósent, Flokkur fólksins 2,8 prósent og Framsóknarflokkurinn og Kvennaframboðið fengju 2,5 prósent hvor flokkur. Borgin okkar, sem er framboð Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, fengi 1 prósent. Alþýðufylkingin, Karlalistinn og Höfuðborgarlistinn fengju minna en 1 prósents fylgi. Svarendur í könnuninni nefndu hvorki Frelsisflokkinn né Íslensku þjóðfylkinguna.

Ef niðurstaða kosninga yrði í takti við þessa nýju könnun fengi Samfylkingin 8 borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn fengi 6, VG fengi 3 og Viðreisn, Píratar og Miðflokkurinn fengju 2 fulltrúa hver flokkur.

Þeir flokkar sem núna mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, það er Samfylkingin, VG og Píratar, fengju samanlagt 13 borgarfulltrúa af 23 og gætu því myndað meirihluta áfram.

Hringt var í 1.050 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 796 samkvæmt lagskiptu úrtaki 7. maí. Svarhlutfallið var 75,8 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri.

Alls tóku 52,9 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru 11,4 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu, 17,6 prósent sögðust óákveðin og 18,0 prósent vildu ekki svara spurningunni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.