Erlent

Obama segir ákvörðun Trump „alvarleg mistök“

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Barack Obama fyrrverandi forseti Bandaríkjanna er einn af mörgum sem hefur tjáð sig um ákvörðun Trump um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi stórveldanna. Obama segir það mikil mistök og að Bandaríkin hafi verið öruggari á þeim árum eftir að skrifað var undir samninginn árið 2015 þökk sé diplómötum, Bandarískum þingmönnum og bandamönnum.

Theresa May forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel kanslari Þýskalands og Emmanuel Macron Frakklandsforseti gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem að þau lýsa yfir áhyggjum og harma ákvörðun Trump. 

Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsir einnig yfir miklum áhyggjum yfir ákvörðun Trump og kallar eftir því að önnur lönd standi við samninginn sem gerður var árið 2015.

Hassan Rouhani forseti Íran ávarpaði þjóð sína í beinni útsendingu eftir að Trump tilkynnti ákvörðun sína. Hann sagði að þeir myndu ekki fara strax í það að auðga úran og myndu leita leiða til þess að semja við önnur lönd sem komu að samningnum eins og Rússland, Kína, Bretland, Frakkland og Þýskaland. 

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísrael fagnaði ákvörðun Trump í sjónvarpsræðu og sagði að þetta væri sögulegt útspil og þakkaði honum fyrir hugrekkið sem hann sýndi. 

Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður hefur einnig sagt að ákvörðun Trump sé gálaus og að hann hafi í dag leitt Bandaríkin inn á aðra mun hættulegri slóð.

 


Tengdar fréttir

Trump dregur Banda­ríkin út úr kjarn­orku­samningi stór­veldanna

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×