Fótbolti

Iniesta kveður Barcelona │ „Mun aldrei spila gegn Barca“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Andres Iniesta mun yfirgefa Nývang í lok tímabilsins
Andres Iniesta mun yfirgefa Nývang í lok tímabilsins vísir/getty
Andres Iniesta mun yfirgefa Barcelona í lok þessa tímabils en hann staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag.

„Þetta er mitt síðasta tímabil hér. Ég tók mér langan tíma í að taka þessa ákvörðun. Fyrir mér er Barcelona besta félag heims og þetta félag hefur gefið mér allt,“ sagði Iniesta á fundinum.

„Ég vil þakka liðsfélögum mínum og öllum samferðafólki mínu sem gerðu mig betri. Tíminn hjá Barcelona hefur verið draumi líkastur, hellingur af titlum og einstökum minningum allan ferilinn.“





Iniesta hefur verið hjá Barcelona allan sinn feril, eða 22 ár. Hann hefur unnið spænsku deildina átta sinnum og níundi titillinn er í seilingarfjarlægð, Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum og sex bikarmeistaratitla.

Þá varð hann heimsmeistari með spænska landsliðinu árið 2010.

„Ég er næstum 34 ára. Ég skildi allt eftir á vellinum og gefið allt fyrir félagið.“

Erlendir fjölmiðlar segja Iniesta vera á leiðinni til Kína og hefur forseti Chongqing Dangdai Lifan staðfest að félagið sé í viðræðum við Iniesta.

„Það á enn eftir að ganga frá ýmsu. Ég hef sagt áður að ég mun aldrei spila gegn Barcelona svo ég mun ekki spila í Evrópu. Það kemur allt í ljós í lok tímabilsins,“ sagði Andres Iniesta.



 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×