Fótbolti

48 liða HM í Katar 2022?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hressir Þjóðverjar með bikarinn.
Hressir Þjóðverjar með bikarinn. vísir/afp
Suður-ameríska knattspyrnusambandið sendi í vikunni fyrirspurn á FIFA um að taka upp 48 liða HM í Katar 2022 en áætlun FIFA um að stækka mótið átti að taka gildi síðar.

Keppnin átti að stækka úr 32-liðum í 48-lið árið 2026 en nú hafa Suður-Ameríkuþjóðir tekið saman höndum og lagt inn beiðni þess efnis að 2022 verði liðin 48 í stað 32.

„Við óskum eftir því að 2022 verði heimsmeistaramótið spilað með 48 liðum,” sagði Alejandro Dominguez, forseti CONMEBOL (suður-ameríska sambandsins), en tíu knattspyrnuformenn Suður-Ameríku þjóða skrifuðu undir plaggið sem Dominguez afhenti forseta FIFA.

Fimm lið frá Suður-Ameríku verða á HM í Rússlandi í sumar en það eru Úrúgvæ, Kólumbía, Perú, Brasilía og Argentína sem er einmitt með Íslandi í riðli.

Vanalega fær Suður-Ameríka fjögur pláss á HM en fimmta sætið er barátta milli tveggja heimsálfa. Nú vann Perú Nýja Sjáland í baráttunni um síðasta sætið.

Verði breytingar á þessu þá mun Suður-Ameríka fá sex sæti og eitt lið fer í umspil við lið úr annari heimsálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×