Erlent

Aðalritari sænsku Nóbelsnefndarinnar hættir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sara Danius á blaðamannafundi í Stokkhólmi dag.
Sara Danius á blaðamannafundi í Stokkhólmi dag. Vísir/AFP
Sara Danius, aðalritari sænsku Nóbelsnefndarinnar, hætti störfum fyrir nefndina í dag. Ástæðu afsagnarinnar má rekja til þess að eiginmaður eins meðlims nefndarinnar var sakaður um kynferðislega áreitni. Nóbelnefndin, sem veitir Nóbelsverðlaun í bókmenntum ár hvert, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín í málinu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Danius tilkynnti um afsögn sína á blaðamannafundi í dag og sagði málið hafa haft alvarleg áhrif á störf nefndarinnar. Hún sagði einnig að nefndin hefði óskað eftir því að hún hætti sem aðalritari og að afsögnin tæki þegar gildi.

Átján konur stigu fram undir merkjum #MeToo-byltingarinnar í nóvember síðstliðnum og sökuðu Jean-Claude Arnault, áhrifamann í sænsku bókmenntalífi, um kynferðislega áreitni. Arnault er eiginmaður ljóðskáldsins Katarinu Frostenson, sem valin var inn í Nóbelsnefndina árið 1992. Arnault þvertekur fyrir ásakanirnar en þær má rekja allt til ársins 1997.

Ófremdarástand hefur ríkt innan raða sænsku Nóbelsnefndarinnar síðan konurnar stigu fram. Þrír meðlimir, Klas Ostergren, Kjell Espmark og Peter Englund, hættu störfum fyrir nefndina undir lok síðustu viku í mótmælaskyni eftir að nefndin kaus gegn því að reka Frostenson, eiginkonu Arnaults.

Meðlimir sænsku Nóbelsnefndarinnar eru skipaðir ævilangt og því er ekki hægt að skipta meðlimum út ef þeir kjósa að hætta eða eru reknir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×