Innlent

Segir alvarlegt ósamræmi um stuðning Íslands við árásir

Kjartan Kjartansson skrifar
Björn Leví (t.h.) segist ekki telja árásirnar í Sýrlandi réttlætanlegar.
Björn Leví (t.h.) segist ekki telja árásirnar í Sýrlandi réttlætanlegar. Vísir/Anton Brink
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur áhyggjur af ósamræmi í yfirlýsingu Nató annars vegar og íslenskra ráðamanna hins vegar um stuðning Íslands við loftárásirnar í Sýrlandi um helgina. Hann segist telja það afsagnarsök ef ráðherrar hafi ekki sagt satt um stuðning Íslands.

Atlantshafsbandalagið (NATO) sagði í gær að öll aðildarríki þess hefðu lýst stuðningi við loftárásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka í Sýrlandi á aðfaranótt laugardags. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði hins vegar að íslensk stjórnvöld hefðu ekki lýst við sérstökum stuðningi við árásirnar í viðtali við RÚV í gær.

Af þessu ósamræmi sagðist Björn Leví hafa áhyggjur í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Það væri mjög alvarlegt ef annað hvort Nató eða íslenskir ráðherrar væru að segja ósátt um stuðninginn.

„Ef að íslenskir ráðamenn tóku þá ákvörðun að segja já við þessum árásum og segja svo ekki satt um það finnst mér það vera afsagnarsök,“ sagði Björn Leví sem líkti stuðningnum við ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar um að styðja innrásina í Írak árið 2003.

Um árásirnar sjálfar sagði Björn Leví að hann teldi þær örugglega ekki réttlætanlegar. Sjálfur væri hann friðarsinni og teldi ofbeldi aldrei svar við neinu, óháð því hver hafi átt upptökin að átökunum.

Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar réðust á skotmörk sem þeir segja tengjast efnavopnabúri Sýrlandsstjórnar. Með þeim vildu ríkin bregðast við efnavopnaárás í bænum Douma um síðustu helgi sem þau segja ríkisstjórn Bashars al-Assad bera ábyrgð á.


Tengdar fréttir

Sarín- og klórgas sagt notað í Douma

Loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka eru sagðar hafa náð markmiðum sínum um að laska efnavopnagetu sýrlenskra stjórnvalda.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.