Innlent

Starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni stöðvuð

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ásta Sigurðardóttir hundaræktandi í Dalsmynni.
Ásta Sigurðardóttir hundaræktandi í Dalsmynni. VÍSIR/GVA
Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um stöðvun starfsemi Hundaræktarinnar ehf í Dalsmynni á grundvelli laga um velferð dýra. Ástæða stöðvunar er að kröfur stofnunarinnar um varanlegar úrbætur hafa ekki verið virtar.

Samkvæmt tilkynningu frá Matvælastofnun var það einkum varðandi þjálfun, umönnun og umhirðu hundanna, þar með talið hreinlæti og skráningar. Viðhaldi húsnæðis var sömuleiðis ábótavant. Aðgerðir og áætlanir vegna ormameðhöndlunar hunda ásamt sýnatökum voru sömuleiðis ekki fullnægjandi.

Með ákvörðuninni er starfsemin í hundahúsum að Dalsmynni bönnuð, þ.m.t. innflutningur hunda, pörun, ræktun, got og annað hundahald sem ætlað er til ræktunarinnar eða tengist starfseminni, sem og pössun og geymsla á hundum. 

Óheimilt verður að nýta húsin undir hundahald nema að undangenginni úttekt stofnunarinnar þar sem viðhald og ástand húsa sem notuð hafa verið undir starfsemina er ekki viðunandi m.t.t. þrifa og sótthreinsunar, sérstaklega út frá smiti með orminum Strongyloides stercoralis.

Hundaræktuninni hefur verið veittur frestur til eins mánaðar til að ráðstafa hundum að Dalsmynni og komast þannig hjá vörslusviptingu hunda af hálfu Matvælastofnunar. 

Matvælastofnun hefur áður haft afskipti af starfseminni og um endurtekin brot er að ræða. Dreifingarbanni Matvælastofnunar árið 2014 var aflétt þegar kröfum stofnunarinnar um úrbætur hafði verið sinnt og gripið hafði verið til nauðsynlegra aðgerða til halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar. Eigandi Dalsmynnis mótmælti þessu harðlega á sínum tíma. 

Frá Dalsmynni.Vísir/Arnar Halldórsson

Áður unnið meiðyrðamál vegna gagnrýni

Dalsmynni hefur sætt töluverðri gagnrýni síðustu ár, meðal annars fyrir að stunda „hvolpaframleiðslu.“  Ásta Sigurðardóttir, eigandi Dalsmynnis, vann árið 2009 meiðyrðamál gegn Hrafnhildi Jónu Þórisdóttir vegna ummæla um starfsemina á bloggsíðunni hundaspjall.is. Fjögur ummæli voru dæmd ómerk. Þurfti Hrafnhildur að greiða Ástu hálfa milljón í málskostnað en kröfu um miskabætur var hafnað.  

Ásta fór einnig í meiðyrðamál gegn lögmanninum Árna Stefáni Árnasyni árið 2014 og krafðist þess að fá tvær milljónir í miskabætur. Var vísað til margvíslegra ummæla sem Árni Stefán hafði látið falla á bloggsíðu sinni, í fjölmiðlum og þættinum Málið. 

„Hann kallar mig dýraníðing. Það er ekki fallegt orð,“ sagði Ásta í samtali við fréttastofu vegna málsins. 

Ásta vann málið í Héraðsdómi Reykjaness og var Árni dæmdur fyrir meiðyrði, sjö af níu ummælum voru þó látin standa af Hæstarétti Íslands.  Árni Stefán þurfti að greiða Ástu 200 þúsund krónur í miskabætur og alls 400 þúsund krónur í málskostnað Ástu og Dalsmynnis. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Hvolpurinn kostar 350 þúsund krónur

Ásta í Dalsmynni segir kolsvarta starfsemi fara fram í hundaræktun hér á landi og því sæti hún ofsóknum, með umdeilda starfsemi sína. Ásta vill fá tvær milljónir frá lögmanninum Árna Stefáni Árnasyni vegna meiðyrða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×