Erlent

Fyrrverandi forseti Suður-Kóreu sakfelldur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu svipti Park Geun-hye embætti forseta í mars í fyrra.
Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu svipti Park Geun-hye embætti forseta í mars í fyrra. Vísir/EPA
Park Geun-hye hefur verið dæmd fyrir að hafa misnotað vald sitt meðan hún gegndi embætti forseta Suður-Kóreu. Hún gæti átt yfir höfði sér 30 ára fangelsi og má búast við að þurfa að greiða hundruð milljóna íslenskra króna í skaðabætur.

Verið er að lesa upp dóminn yfir Park þessa stundina og búast má við því að upplestrinum ljúki á næstu klukkustundum. Forsetinn fyrrverandi var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna en Park hefur ætíð haldið því fram að um pólitísk réttarhöld sé að ræða. Því hafi hún ákveðið að sniðganga þau með öllu.

Hún var svipt embætti fyrir rétt rúmu ári en Park var grunuð um margvísleg brot í embætti. Milljónir Suður-Kóreumanna mótmæltu á götum úti þegar fregnir fóru að berast af framferði forsetans. Ákvað því stjórnlagadómstóll landsins að setja hana af og var hún að lokum ákærð í 18 liðum.

Ákærurnar lutu að mútum, misbeitingu valds, þvingunum og leka á ríkisleyndarmálum. Vinkona Park er meðal annars sögð hafa nýtt sér tengslin við forsetann til að þvinga fyrirtæki til að greiða milljónir dollara til sjóða sem hún stjórnaði.

Forsetinn fyrrverandi hafði kynnst henni í gegnum sértrúarsöfnuðinn sem hún hefur tilheyrt frá unga aldri. Heimildir herma að Park hafi jafnvel látið trúarlegar ráðleggingar vinkonu sinnar ráða miklu um stefnu sína meðan hún hélt um suður-kóresku stjórnartaumanna.

Park hefur ætíð neitað sök.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×