Erlent

Komu í veg fyrir voðaverk í hálfmaraþoninu í Berlín

Ingvar Þór Björnsson skrifar
30.000 manns tóku þátt í hlaupinu í dag en um 630 lögreglumenn sáu til þess að allt færi vel fram.
30.000 manns tóku þátt í hlaupinu í dag en um 630 lögreglumenn sáu til þess að allt færi vel fram.
Sex menn eru í haldi þýsku lögreglunnar fyrir að skipuleggja voðaverk sem fremja átti í hálfmaraþoninu í Berlín í dag. The Guardian greinir frá. 

Þýska dagblaðið Die Welt greindi fyrst frá því að lögreglan hefði komið í veg fyrir verknaðinn. Einn hinna grunuðu er sagður tengjast hryðjuverkamanninum Anis Amri sem ók vörubíl inn á jólamarkaðinn á Breitscheidplatz í Berlín í desember árið 2016 með þeim afleiðingum að tólf manns fórust og um fimmtíu manns særðust.

Þá greinir Die Welt einnig frá því að einn mannanna hafi verið með tvo hnífa sem hann hugðist nota í árásinni í dag. Jafnframt eiga hundar sem eru þjálfaðir til þess að finna sprengiefni að hafa gefið það í skyn að slík efni væri að finna í kjallara einnar íbúðar þar sem húsleit var gerð.

Yfir 30.000 manns tóku þátt í hlaupinu í dag en 630 lögreglumenn sáu til þess að allt færi vel fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×