Erlent

Húsleit hjá BMW vegna rannsóknar á útblásturssvindli

Kjartan Kjartansson skrifar
Höfuðstöðvar BMW í München í Þýskalandi. Fyrirtækið er helst þekkt fyrir sportbíla sína.
Höfuðstöðvar BMW í München í Þýskalandi. Fyrirtækið er helst þekkt fyrir sportbíla sína. Vísir/AFP

Þýskir saksóknarar gerðu húsleit á skrifstofu bílaframleiðandans BMW í München í dag. Húsleitin tengist rannsókn þeirra á svindli bílaframleiðenda á útblástursprófum. Kanna þeir hvort að hugbúnaður í dísilbílum BMW hafi verið notaður til að láta þá líta út fyrir að menga minna í prófunum.

Hneykslið í kringum svindlið á útblástursprófunum hefur leikið suma þýska bílaframleiðendur eins og Volkswagen grátt. Fyrirtækið hefur þurft að greiða milljarða dollara í sektir. BMW hefur hins vegar fram að þessu verið ósnortið af því, að því er segir í frétt New York Times.

Um hundrað rannsakendur tóku þátt í húsleitinni í München og í vélarverksmiðju í Austurríki. Þeir segja að rannsóknin beinist að því hvort að hugbúnaðurinn takmarki mengun frá bílnum þegar verið er að prófa hann en leyfi meiri útblástur þegar hann er kominn út á göturnar.

Í yfirlýsingu segja forsvarsmenn BMW að hugbúnaðurinn sem var orsök húsleitarinnar hafi verið settur upp fyrir mistök. Fyrirtækið hafi ekki ætlað að blekkja yfirvöld vísvitandi. Það ætlar að innkalla á tólfta þúsunda bíla sem eru með hugbúnaðinn.

Til samanburðar var hugbúnaður sem notaður var til að svindla á prófum í ellefu milljónum bifreiða Volkswagen um víða veröld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.