Innlent

Lögfræðiálit unnið um stöðu þeirra sem þreyttu samræmdu prófin

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 


FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR Vísir/ernir
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fundaði með fulltrúum Menntamálastofnunar (MMS) um helgina vegna þeirrar stöðu sem upp er komin varðandi samræmd próf níundu bekkinga.

Í vikunni þreyttu nemar í 9. bekk samræmd próf en tölvukerfi MMS réði ekki við álagið sem hlaust af próftöku í ensku og íslensku. Aðeins stærðfræðiprófið gekk snurðulaust fyrir sig. Fulltrúar hagsmunaaðila munu funda í menntamálaráðuneytinu vegna málsins á miðvikudag.

„Við erum að kanna hver lagaleg staða þessara prófa er en í vinnslu eru lögfræðiálit hvað það varðar. Meginmarkmiðið er að við getum eftir samráðsfundinn skýrt stöðu og gildi þessara prófa með hagsmuni nemenda að leiðarljósi,“ segir Lilja.

Þorsteinn Sæberg, formaður Félags skólastjórnenda, segir við Fréttablaðið að hann telji ekki ástæðu til að börnin taki prófin á nýjan leik.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það verður einhver uppákoma í kringum samræmda próftöku. Þetta er í raun óásættanlegt klúður. Ég efa ekki að ráðherra skoði þetta mál sérstaklega. Hún lýsti því yfir að hún hefði verulegar áhyggjur af þessari framkvæmd og ég deili þeim áhyggjum með henni,“ segir Þorsteinn.

Lilja segir að ráðuneytið muni ekki hafa álit á neinum tillögum fyrr en stöðumat liggi fyrir. Réttindi og staða nemenda, með hagsmuni þeirra að meginmarkmiði, sé forgangsatriði.

„Við erum að fara yfir hvað fór úrskeiðis og hver ber ábyrgðina á því. Brýnast er núna að endurvinna traust á MMS og ráðuneytið er að vinna að aðgerðum sem miða að því marki,“ segir Lilja.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×