Lífið

Áttavilltir ferðamenn í leit að typpum komu þingkonu á kortið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona, vakti athygli á tilkynningunni sem sjá má hér til hægri.
Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona, vakti athygli á tilkynningunni sem sjá má hér til hægri. Mynd/Samsett

Tilkynning sem hengd var upp í húsnæði að Laugavegi 116, á hverri ferðamönnum er sérstaklega bent á að þeir séu ekki staddir á hinu margfræga Reðasafni, hefur farið eins og eldur í sinu um internetið.

Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona Pírata, deildi myndinni á Twitter-reikningi sínum en yfir hundrað þúsund notenda hafa nú „líkað við“ færsluna. Þá vakti myndin gríðarlega athygli í umræðuþræði á vefsíðunni Reddit og hún auk þess tekin til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum.

Hið íslenzka reðasafn, sem á ensku útleggst sem The Icelandic Penis Museum, er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Safnið var upphaflega opnað á Húsavík en flutti til Reykjavíkur, nánar tiltekið að Laugavegi 116, árið 2011 og hefur staðið þar síðan.

Svo virðist sem ferðamenn fari ítrekað dyravillt þegar þeir leggja leið sína á safnið en starfsmaður The Reykjavík Coworking Unit, sem staðsett er í sama húsnæði og Reðasafnið, fann sig knúinn til að hengja tilkynninguna upp, ef marka má fyrstu Twitter-færslu af málinu. „Þetta er ekki reðasafnið. Farðu aftur inn á Laugaveg (götuna), til vinstri og gakktu 20 metra,“ stendur í leiðbeiningum á skiltinu.

„Þú munt ekki missa af því. Það er stór mynd af typpi utan á því.“

Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona, deildi svo sinni eigin mynd af tilkynningunni í vikunni. Þegar þetta er ritað hefur færslu Ástu verið „endurtíst“ 31 þúsund sinnum og þá hafa rúmlega 115 þúsund manns „líkað við“ hana.

Ásta segir í samtali við Vísi að hún hafi komið auga á skiltið þegar hún átti leið hjá skrifstofu Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, sem einnig er til húsa við Laugaveg 116. Hún hafi því smellt af mynd, deilt henni og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa eins og rakið hefur verið.

„Viðbrögðin hafa eiginlega verið aðeins of góð. Ég bjóst ekki við þessu,“ segir Ásta. „Lækin“ hrannast enn inn og kveðst Ásta hafa þurft að slökkva á Twitter-tilkynningum í síma sínum vegna fjölda þeirra sem líka við færsluna.

„Svo er kannski gott að taka fram að ég er ekki tengd typpasafninu á nokkurn hátt,“ segir Ásta sposk að lokum.


Tengdar fréttir

Búrhvalstyppið stendur upp úr

Hið íslenzka reðasafn varð tuttugu ára í síðustu viku. Safnið er alltaf jafn vinsælt, sérstaklega meðal útlendinga. Limurinn af búrhval og mannslimurinn vekja einna mestu athygli.

Reðasafnið hagnast um 1,4 milljónir

Hið íslenska reðasafn var rekið með 1,4 milljóna króna hagnaði í fyrra. Fyrirtækið skilaði einnig hagnaði árið 2012 en þá var afkoman jákvæð um 368 þúsund krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.