Erlent

Sex and the City-leikkona fer í framboð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Cynthia Nixon býður sig fram í forvali Demókrataflokksins til ríkisstjóra New York-fylkis. Kosningarnar fara fram í byrjun nóvember.
Cynthia Nixon býður sig fram í forvali Demókrataflokksins til ríkisstjóra New York-fylkis. Kosningarnar fara fram í byrjun nóvember. vísir/getty

Bandaríska leikkonan, Cynthia Nixon, sem þekktust er fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Sex and the City tilkynnti í dag að hún bjóði sig fram í forvali Demókrataflokksins til ríkisstjóra New York-fylkis.

Kosningar til ríkisstjóra fara fram í byrjun nóvember. Nixon tilkynnti um framboðið með myndbandi á samfélagsmiðlum í dag auk þess sem vefsíðan Cynthia for New York opnaði.  

Í myndbandinu segir Nixon að hún hafi alltaf búið í New York og að hún vilji hvergi annars staðar búa. Hins vegar sé margt sem betur megi fara í fylkinu og eitthvað þurfi að breytast.

Bendir Nixon meðal annars á gríðarlegt bil á milli ríkra og fátæka sem einkennir einmitt stærstu borg fylkisins, New York, en Nixon segir að misskipting auðs sé mest í New York-fylki af öllum fylkjum Bandaríkjanna. Þannig búi helmingur barna í borgum í norðurhluta fylkisins fyrir neðan fátækramörk.

Samkvæmt frétt New York Times hefur núverandi ríkisstjóri New York, Andrew M. Cuomo, gott forskot á Nixon ef marka má skoðanakannanir. Nýleg könnun sýnir hann með 66 prósent fylgi á meðal kjósenda Demókrata á meðan Nixon er með 19 prósent fylgi. Könnunin var hins vegar gerð áður en Nixon lýsti formlega yfir framboði í dag.

Nixon hefur lengi látið til sín taka í stjórnmálasenu New York-borgar og hefur helst barist fyrir bættu menntakerfi, jafnrétti til hjónabands og auknu fjármagni til brjóstakrabbameinsrannsókna.

Nixon er þó án efa þekktust fyrir leik sinn í þáttunum Sex and the City sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni HBO á árunum 1998 til 2004. Hún virðist þó ekki mjög þekkt á meðal kjósenda ef marka má fyrrnefnda könnun þar sem 60 prósent svarenda sögðust ekki hafa neina skoðun á henni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.