Erlent

Netanyahu yfirheyrður vegna spillingarmáls

Kjartan Kjartansson skrifar
Netanyahu hefur verið með storminn í fangið síðustu misseri. Hann er sakaður um spillingu.
Netanyahu hefur verið með storminn í fangið síðustu misseri. Hann er sakaður um spillingu. Vísir/AFP
Lögreglan í Ísrael yfirheyrði Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra, vegna rannsóknar á spillingarmáli sem tengist stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins í dag.  Þetta er í fyrsta skipti sem Netanyahu hefur þurft að svara spurningum yfirvalda vegna málsins.

Tveir nánir bandamenn forsætisráðherrans voru handteknir í desember. Þeir eru grunaðir um að hafa stutt reglugerðir sem fjarskiptafyrirtækið Bezeq græddi  hundruð milljóna dollara á. Á móti hafi fréttasíða fyrirtækisins veitt Netanyahu jákvæða umfjöllun, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Netanyahu á undir högg að sækja þessa dagana. Lögreglan hefur mælt með því að hann verði ákærður fyrir spillingu í tveimur öðrum málum. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa þegið verðmætar gjafir í skiptum fyrir pólitíska greiða og að hafa boðið útgefanda dagblaðs lagasetningu sem hefði veikt samkeppnisaðila þess gegn jákvæðari umfjöllun.

Sjálfur hefur Netanyahu borið af sér allar sakir. Líkir hann ásökununum við nornaveiðar sem runnar séu undan rifjum fjandsamlegra fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Kröfðust afsagnar Netanyahu

Mótmælendur, milli þúsund og tvö þúsund talsins, komu saman í Tel Avív í Ísrael í dag

Netanyahu vísar ásökunum á bug

Lögreglan í Ísrael hefur forsætisráðherrann grunaðan um að flækjast í mútumál og sagði í gær að rétt væri að ákæra hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×