Erlent

Kröfðust afsagnar Netanyahu

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla greindi frá því á þriðjudag að nægar sannanir lægju fyrir til að ákæra Netanyahu fyrir spillingarbrot.
Lögregla greindi frá því á þriðjudag að nægar sannanir lægju fyrir til að ákæra Netanyahu fyrir spillingarbrot. Vísir/AFP
Mótmælendur, milli þúsund og tvö þúsund talsins, komu saman í Tel Avív í Ísrael í dag þar sem afsagnar Benjamin Netanyahu forsætisráðherra var krafist. Lögregla í landinu hefur lagt til að forsætisráðherrann verði ákærður fyrir spillingu í tveimur aðskildum málum.

Lögregla greindi frá því á þriðjudag að nægar sannanir lægju fyrir til að ákæra Netanyahu. Hinn 68 ára forsætisráðherra neitar sök í málinu og segir að rannsókn muni ekki leiða til neins. Ríkissaksóknari Ísraels þarf nú að taka afstöðu til hvort ákæri beri Netanyahu.

Reuters  greinir frá því að skoðanakönnun Reshet bendi til að nærri helmingur Ísraela taki lögreglu trúanlega í málinu. Um fjórðungur aðspurðra trúi Netanyahu og annar eins fjöldi segist ekki vita hverjum eigi að trúa í málinu.

Hins vegar segja 49 prósent aðspurðra að Netanyahu eigi að sitja áfram í stóli forsætisráðherra á meðan 43 prósent segja að hann eigi að víkja.

Mútumál

Forsætisráðherrann er 68 ára og gegnir nú embætti forsætisráðherra öðru sinni á ferlinum en alls hefur hann setið í þessu valdamesta embætti Ísraels í tólf ár.

Annað spillingarmálið snýst um að Netanyahu hafi beðið ritstjóra dagblaðs um jákvæða umfjöllun um sig og í staðinn bauðst hann til að gera keppinauti blaðsins erfitt fyrir. Hitt málið snýr að ásökunum þess efnis að ráðherrann hafi þegið gjafir sem voru milljóna virði frá kvikmyndaframleiðandanum Arnon Milchan. Í staðinn hugðist Netanyahu aðstoða Milchan við að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna.

Nokkra mánuði gæti tekið þar til saksóknari ákveði hvort eigi að ákæra Netanyahu.


Tengdar fréttir

Netanyahu vísar ásökunum á bug

Lögreglan í Ísrael hefur forsætisráðherrann grunaðan um að flækjast í mútumál og sagði í gær að rétt væri að ákæra hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×