Innlent

Bragi ætlar ekki að tjá sig að svo stöddu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Ráðast þarf í miklar breytingar á barnaverndarmálum til að endurheimta traust að sögn félagsmálaráðherra. Tilnefning Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur verið gagnrýnd en það er niðurstaða athugunar ráðuneytisins að Bragi hafi ekki brotið af sér. Sjálfur hyggst Bragi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Bragi hefur meðal annars verið sakaður um óeðlileg afskipti af einstökum málum og óskuðu barnaverndanefndir nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eftir því á síðasta ári að ráðuneytið myndi grípa til viðeigandi ráðstafana.

Athugun var sett af stað í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar í nóvember á síðasta ári en ráðuneytið birti niðurstöðurnar í dag. Þær voru kynntar Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndum í Kópavogi, Reykjavík og Hafnarfirði með bréfi dagsettu síðastliðinn föstudag.

Að lokinni nánari athugun ráðuneytisins er það mat ráðuneytisins að því er fram kemur í bréfinu að þörf sé á aðgerðum til að endurheimta traust og trúnað innan málaflokksins. Þá verði utanaðkomandi aðila falið að miðla málum og settur verður á fót hópur fagaðila sem verður falið að móta skýrara verklag um samskipti milli stofnanna. Ljóst sé að ráðast þurfi í talsverðar breytingar en unnið er að frumvarpi til breytinga á barnaverndarlögum í velferðarráðuneytinu. Félagsmálaráðherra var inntur eftir svörum um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Niðurstöðurnar eru þær að Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafi ekki brotið af sér með neinum hætti. Hins vegar eru mörg álitamál sem þarf að fara ofan í og menn eru sammála um,” sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, á Alþingi í dag.

Ekki náðist samband við Ásmund Einar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag. Þá kvaðst Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, í samtali við fréttastofu, ekki ætla að tjá sig um málið að svo stöddu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.