Enski boltinn

Usain Bolt spilar fótboltaleik á Old Trafford í júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt með Manchester United búninginn.
Usain Bolt með Manchester United búninginn. Vísir/Getty
Usain Bolt, áttfaldur Ólympíumeistari og ellefufaldur heimsmeistari í spretthlaupum, tilkynnti það á Twitter í morgun að hann muni setja á sig fótboltaskóna í sumar.

Usain Bolt lagði frjálsíþróttaskóna á hilluna eftir heimsmeistaramótið í frjálsum í London í ágúst en árið á undan vann hann þrenn gullverðlaun á ÓL í Ríó.

Leikurinn sem Usain Bolt spilar verður góðgerðaleikurinn Soccer Aid á vegum UNICEF en Jamaíkamaðurinn mun spila fyrir heimsliðið sem mætir úrvalsliði Englands. Liðin eru skipuð frægu fólki og gömlum fótboltagoðsögnum.

Þessi leikur fer fram á tveggja ára fresti og hefur alltaf farið fram á Old Trafford fyrir utan í eitt skipti.

Tónlistarmaðurinn Robbie Williams hefur verið í fararbroddi meðal fræga fólksins í leiknum en fyrir utan þær stjörnur taka hafa einnig tekið þátt í leiknum goðsagnir úr fótboltanum eins og Alan Shearer, Jamie Redknapp, Teddy Sheringham, David Seaman, Franco Baresi, Paolo Di Canio, Luís Figo og Romário svo einhverjir séu nefndir.







Usain Bolt hefur aldrei farið leynt með áhuga sinn á fótbolta eða þann draum sinn að fá að spila fyrir Manchester United.

Hann hefur kíkt á æfingu hjá liðinu og mætt á leiki á Old Trafford. Nú fær hann hinsvegar tækifæri til að spila leik á Old Trafford vellinum og það eru örugglega margir spenntir að sjá það. Leikurinn fer fram 10. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×