Fótbolti

Batsman er þegar búinn að setja met hjá Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michy Batshuayi hefur slegið í gegn hjá Dortmund.
Michy Batshuayi hefur slegið í gegn hjá Dortmund. Vísir/Getty

Belgíski framherjinn Michy Batshuayi fékk ekki mörg tækifæri hjá Chelsea-liðinu en hann er að nýta tækifærið sitt frábærlega hjá Borussia Dortmund.

Batshuayi kallar sjálfan sig „Batsman" sem vísun í ofurhetjuna „Batman" sem við þekkjum líka undir íslenska heitinu leðurblökumaðurinn. Batsman kom svo sannarlega til bjargar þegar Dortmund seldi Pierre-Emerick Aubameyang til Arsenal.

Michy Batshuayi skoraði nú síðast tvö mörk í 3-2 sigri á Atalanta  í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Hann hafði áður skorað þrjú mörk í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum á móti Köln (2) og Hamburger SV (1).Með því að skora fimm mörk í fyrstu þremur leikjum sínum með Borussia Dortmund setti hann nýtt félagsmet. Engum hefur tekið að skora svo mörg mörk í fyrstu þremur leikjum sínum.

Batshuayi hafði skorað 10 mörk í 25 leikjum í öllum keppnum með Chelsea á tímabilinu eða mark á 107 mínútna fresti sem er svo sem ekkert slæmt. Hjá Dortmund hefur hann skorað mark á mark á 54 mínútna fresti.

Batshuayi þurfti bara að fá tækifærið og það hefur hann sýnt og sannað í Þýskalandi. Hann hefur aðeins fengið að byrja fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni með Chelsea síðan að félagið keypti hann fyrir 33 milljónir punda frá Marseille árið 2016.
Michy Batshuayi er á láni hjá Dortmund frá Chelsea og þýska félagið hefur þegar gefið það út að það ætli að reyna að kaupa hann í sumar.

Samingur Batshuayi og Chelsea rennur ekki út fyrr en í lok júní árið 2021 eða eftir rúm þrjú ár. Hann hefur ekkert viljað gefa upp framtíðarplön sín í viðtölum eftir leiki Dortmund.  

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.