Mkhitaryan í gjafastuði og Ramsey á skotskónum í stórsigri Arsenal gegn Everton

Aubameyang fagnar marki Koscielny í leiknum.
Aubameyang fagnar marki Koscielny í leiknum. vísir/getty
Henrikh Mkhitaryan lagði upp þrjú mörk í 5-1 sigri Arsenal gegn Everton í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en Pierre-Emerick Aubameyang stimplaði sig sömuleiðis inn með marki í fyrsta heimaleik sínum fyrir Skytturnar.

Gylfi Þór Sigurðsson kom ekkert við sögu í liði Everton í dag.

Þetta var fyrsti leikur Aubameyang fyrir Arsenal og fyrsti heimaleikur Armenans Mkhitaryan en hann lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Aaron Ramsey á 6. mínútu leiksins.

Laurent Koscielny kom Arsenal 2-0 yfir skömmu síðar er hann skallaði í netið af stuttu færi en Aubameyang var tilbúinn að stýra boltanum í netið fyrir aftan franska miðvörðinn.

Ramsey var aftur á ferðinni á 19. mínútu þegar skot hans fór af varnarmanni, breytti um stefnu og hafnaði í netinu, óverjandi fyrir Pickford í marki Everton.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks var komið að Aubameyang eftir sendingu frá Mkhitaryan. Er markið sást í endursýningu sást greinilega að Aubameyang var rangstæður en markið stóð þó og kláraði hann færið einkar snyrtilega.

Varamaðurinn Dominic Calvert-Lewin minnkaði muninn fyrir Everton með góðum skalla á 64. mínútu aðeins þremur mínútum eftir að hafa komið inn sem varamaður en sú gleði entist ekki lengi hjá Everton-mönnum.

Tíu mínútum síðar fullkomnaði Ramsey þrennuna, aftur eftir sendingu frá Mkhitaryan, en Ramsey var tekinn af velli stuttu síðar. Arsenal situr áfram í 6. sæti deildarinnar með 45 stig, fimm stigum á eftir Chelsea og Liverpool í 3-4. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira