Erlent

Skráð sem týnd en keppti á sama tíma í Bachelor

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rebekah Martinez hefur vakið mikla athygli sem keppandi í The Bachelor.
Rebekah Martinez hefur vakið mikla athygli sem keppandi í The Bachelor. Mynd/ABC
Rebekah Martinez, keppandi í Bachelor, var skráð sem týndur einstaklingur í nokkra mánuði áður en glöggur lesandi staðarblaðs í Norður-Karólínu benti blaðinu á að hún væri keppandi í raunveruleikaþættinum The Bachelor. New York Times greinir frá.

Í gær birti staðarblaðið The North Coast Journal frétt um 35 einstaklinga sem skráðir væru sem týndir af yfirvöldum. Í Facebook-færslu á Facebook-síðu blaðsins var spurt hvort að lesendur hefðu orðið var við einhvern af þessum 35 einstakingum.

„Já, Rebekah Martinez er keppandi í nýju Bachelor-þáttaröðinni,“ skrifaði Amy Bonner O'Brien við færslu blaðsins.

Sem er bæði satt og rétt. Martinez, 22 ára gömul, er ein af mest áberandi þáttakendum nýjustu þáttaraðar The Bachelor, afar vinsæls raunveruleikaþáttar þar sem hópur kvenna keppir um hylli piparsveins.

Í ljós kom að móðir Martinez hringdi í lögregluna þann 18. nóvember síðastliðinn og tilkynnti að dóttir hennar væri týnd. Fyrsti þáttur núverandi þáttaraðar af The Bachelor var frumsýndur á nýársdag en þrátt fyrir að vera áberandi í þáttunum og virk á samfélagsmiðlum var Martinez enn á lista yfirvalda yfir týnda einstaklinga.

Svo virðist sem að lögreglunni í Humboldt-sýslu í Kaliforníu, þar sem hún var skráð sem týnd, hafi ekki tekist að hafa samband við Martinez, líkt og verklagsreglur gera ráð fyrir. Því hafi ekki verið hægt að staðfesta að hún væri ekki týnd en gera má ráð fyrir að lögregluþjónar sýslunnar fylgist ekki grannt með The Bachelor.

Eftir frétt The North Coast Journal og athugasemd O'Brien tókst lögreglunni lokst að ná í Martinez sem gat staðfest að hún væri sprellifandi og alls ekki týnd. Grínaði hún meðal annars með atvikið á Twitter í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×