Enski boltinn

Sex í röð hjá Birki og Aston Villa

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birkir í leik með Aston Villa fyrr í vetur.
Birkir í leik með Aston Villa fyrr í vetur. Vísir/getty
Birkir Bjarnason lék allan leikinn á miðjunni hjá Aston Villa í 3-2 sigri á Burton í ensku Championship-deildinni í dag en þetta var sjötti sigurleikur heimamanna í röð.

Birkir hefur fengið aukin tækifæri undanfarnar vikur sem djúpur miðjumaður en hann reyndist hetja liðsins er hann lagði upp sigurmark Villa í síðasta leik.

Scott Hogan og Albert Adomah komu Aston Villa 2-0 yfir með marki sitt hvoru megin við hálfleikinn en Jack Grealish innsiglaði sigur Aston Villa eftir að sjálfsmark Ahmed Elmohamady minnkaði muninn.

Burton minnkaði muninn á ný á 93. mínútu leiksins en það reyndist of seint fyrir botnlið deildarinnar.  Aston Villa aftur á móti situr í 3. sæti, einu stigi á eftir Derby í baráttunni um annað sæti deildarinnar.

Á sama tíma lék Jón Daði Böðvarsson allan leikinn í 0-2 tapi Reading gegn Milwall á Madejski-vellinum í dag en mörk Milwall komu með tveggja mínútna millibili í seinni hálfleik.

Þá sóttu liðsfélagar Arons Einars Gunnarssonar í Cardiff þrjú stig á Elland Road í 4-1 sigri en heimamenn í Leeds misstu snemma mann af velli og leiddu gestirnir 0-3 í hálfleik.

Cardiff er ásamt Aston Villa, Fulham, Derby og Bristol City að berjast um annað sætið en öll eltast þau við Wolves á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×