Enski boltinn

Upphitun: Tekst Liverpool að hefna fyrir niðurlæginguna á Wembley? | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tveir leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Crystal Palace tekur á móti Newcastle og Liverpool mætir Tottenham á Anfield.

Lykillinn að sigri Liverpool verður að halda aftur af Harry Kane, framherja Tottenham sem skoraði í tvígang í 4-1 sigri Tottenham í fyrri leik liðanna í vetur en Liverpool hefur ekki tapað leik á Anfield í tíu mánuði.

Tottenham hefur að sama skapi ekki tekist að vinna á Anfield í tæp sjö ár síðan 2-0 sigur vannst með mörkum frá Rafael Van Der Vaart og Luka Modric en í síðustu sex leikjum liðanna á Anfield hefur Tottenham mistekist að taka stigin þrjú.

Í fyrri leiknum er sagan er ekki með Crystal Palace í liði í þessum fallslag en Crystal Palace hefur aðeins unnið tvo leiki af þrettán þegar þessi lið hafa mæst í ensku úrvalsdeildinni.

Þá hefur Newcastle unnið sjö af síðustu tíu leikjum liðanna í öllum keppnum, þar á meðal leik liðanna á St. James Park í vetur en Newcastle hefur unnið tvo af síðustu þremur útileikjum.

Upphitun fyrir þessa tvo leiki má sjá hér fyrir ofan en þeir eru báðir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport áður en umferðin er svo gerð upp í Messunni klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×