Enski boltinn

Clement: Sanches „skemmdari en ég hélt“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Renato Sanchez er á árslöngu láni hjá Swansea
Renato Sanchez er á árslöngu láni hjá Swansea Vísir/getty
Fyrrum knattspyrnustjóri Swansea, Paul Clement, fékk Renato Sanches til Wales að láni frá Bayern Munich í sumar. Hann segir Sanches vera skemmdari en hann hélt.

Clement fékk Sanches til Swansea eftir að hann heillaðist af leikmanninum á EM í Frakklandi 2016 þar sem hinn ungi Sanches varð Evrópumeistari með Portúgal.

„Sanches leist ekkert of vel á þetta til að byrja með, hann bjóst við því að fara til Manchester United, Chelsea eða PSG, en Bayern vildi ekki senda hann þangað því þar myndi hann ekki fá neinn meiri spilatíma en í Þýskalandi,“ sagði Clement í viðtali við Independent.

Sanches hefur ekki fundið taktinn í liði Swansea og sagði Clement stöðuna vera mjög sorglega.

„Þegar hann kom var hann mun skemmdari en ég hélt. Þetta var strákur sem gekk um með heiminn á herðum sér. Á æfingum var hann frábær, bestur af öllum. En í leikjum þá var hann að taka fáránlegar ákvarðanir og gera mistök.“

„Hann var fastur í vítahring slæmra ákvarðanna. Hinir leikmennirnir voru farnir að kvarta yfir því að hann væri valinn í liðið og skilaði svona frammistöðum svo það varð erfiðara að velja hann í liðið,“ sagði Clement sem var rekinn frá Swansea í desember.

Sanches hefur komið við sögu í 12 af 26 deildarleikjum Swansea og ekki skorað mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×