Erlent

Hnattræn hlýnun gæti leyst kvikasilfur á norðurhjara úr læðingi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skriða af völdum þiðnunar sífrera í Alaska. Bandarískir vísindamenn áætluðu magn kvikasilfurs í freðmýrum út frá kjarnasýnum þaðan.
Skriða af völdum þiðnunar sífrera í Alaska. Bandarískir vísindamenn áætluðu magn kvikasilfurs í freðmýrum út frá kjarnasýnum þaðan. Vísir/AFP
Sífrerinn á norðurskautinu bindur mikið magn kvikasilfurs sem getur losnað út í umhverfið með áframhaldandi hnattrænni hlýnun. Bandarískir vísindamenn telja að tvöfalt meira kvikasilfur leynist í sífreranum en í öllum öðrum jarðvegi, hafinu og lofthjúpnum til saman.

Alls hafa þeir reiknað út að 121 milljón lítrar af kvikasilfri séu bundnir í sífreranum. Það jafngildir um fimmtíu sundlaugum í Ólympíustærð, að því er segir í umfjöllun Washington Post. Vísindamenn hjá bandarískum alríkisstofnunum byggja útreikningana á kjarnasýnum úr freðmýrinni í Alaska.  

Sífrerinn er að þiðna með hlýnandi loftslagi jarðar vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Þegar hefur verið varað við því að bráðnun sífrerans muni enn auka styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum því í honum er bundið gríðarlegt magn kolefnis.

Gæti losnað út í hafið eða loftið

Kvikasilfrið sem nú er varað við að geti losnað út í umhverfið er hættulegt heilsu manna en það virkar sem taugaeitur. Það hefur safnast saman í freðmýrum frá því á síðustu ísöld.

Frumefnið binst lífrænum efnum um alla jörðina og losnar yfirleitt út í lofthjúpinn þegar plöntur deyja og rotna. Á norðurslóðum rotna plöntur hins vegar oft aðeins að hluta. Rætur þeirra verða eftir í frosnum jarðveginum og þannig hefur byggst upp mikill forði kvikasilfurs í sífreranum.

„Eftir því sem sífrerinn þiðnar í framtíðinni mun hluti af þessu kvikasilfri losna út í umhverfið með óþekktum áhrifum á fólk og matarforða okkar,“ segir Kevin Schaefer, vísindamaður við Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna við blaðið.

Óljóst er hversu mikið magn kvikasilfurs gæti borist út í umhverfið og hvernig. Það veltur meðal annars á því að hversu miklu leyti sífrerinn þiðnar. Kvikasilfrinu gæti skolað út í Norður-Íshafið með ám, losnað út í andrúmsloftið eða jafnvel hvoru tveggja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×