Fótbolti

Heimir: Ísland á möguleika gegn bæði Belgíu og Sviss

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ísland dróst í dag í riðil með Belgíu og Sviss í Þjóðardeildinni, nýrri landsliðakeppni Evrópska knattspyrnusambandsins UEFA. Ísland er í A deild keppninnar og var því ljóst að liðið myndi dragast gegn sterkum þjóðum.

„Við teljum okkur eiga möguleika gegn báðum þessum þjóðum. Við vitum auðvitað að þær eru sterkar, en þetta gefur okkur möguleika á að spila gegn sterkustu þjóðum í Evrópu og gaman að því,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, eftir dráttinn.

„Við erum með marga leiki árið 2018 gegn sterkustu þjóðum í heimi; Perú, Mexíkó, Argentínu, Nígeríu, Króatíu og núna Sviss og Belgíu. Við erum með flott prógramm til þess að bæta okkur.“

Ísland leikur vináttulandsleiki við Perú og Mexíkó í vor í undirbúningi fyrir stærsta verkefni fótboltalandsliðsins til þessa, Heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi sem hefst í júní.

Leikirnir í Þjóðardeildinni verða í haust, tveir í september, einn í október og einn í nóvember. Tveir þeirra verða á Laugardalsvelli og tveir á útivelli. Fari svo að Ísland vinni riðilinn mun liðið leika til úrslita Þjóðardeildarinnar sem fram fara í júní 2019.

„Auðvitað eru þessi lið þannig gerð að þau munu sýna okkur okkar veikleika og þá munum við fá tækifæri til þess að bæta okkur,“ sagði Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×