Erlent

Þungvopnaður maður skaut fjóra til bana vegna heimiliserja

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólkið var skotið við bílaþvottastöð í Pennsylvania.
Fólkið var skotið við bílaþvottastöð í Pennsylvania. Vísir/AFP
Þungvopnaður maður skaut fjóra til bana við bílaþvottastöð í Pennyslvania í Bandaríkjunum í dag. Vitni segja árásina hafa verið gerða vegna heimiliserja en hinn 28 ára gamli Timothy Smith var í sambandi með einu fórnarlambanna. Hann myrti tvo menn og tvær konur á þrítugsaldri. Ein kona sem faldi sig í bíl á meðan skothríðin stóð yfir skarst lítillega á glerbrotum, samkvæmt AP fréttaveitunni.



Samkvæmt frétt Guardian var maðurinn klæddur skotheldu vesti og vopnaður þremur byssum. Einum hálfsjálfvirkum riffli að gerðinni AR-15, einnig skammbyssu og annars konar .308 kalíbera riffli.



Smith liggur nú á gjörgæslu en ekki liggur fyrir hvort hann hafi beint vopnum sínum að sjálfum sér eða hafi verið skotinn af lögregluþjónum. Ekki er búist við því að hann muni lifa af.

Guardian segir þetta vera í 21 sinn á árinu sem fleiri en einn láta lífið í skotárás í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári. Þá tengjast skotárásir í Bandaríkjunum iðulega heimiliserjum og heimilisofbeldi. Maðurinn sem myrti 25 í kirkju í Texas í nóvember hafði verið dæmdur fyrir heimilisofbeldi og sótti fjölskylda eiginkonu hans kirkjuna reglulega. Amma eiginkonu hans dó í árásinni.

Sömuleiðis hóf árásarmaður skothríð á heimili fyrrverandi eiginkonu sinnar í Texas í september. Hún var þá með gesti og myrti maðurinn hana og sjö gesti hennar áður en hann var skotinn til bana af lögregluþjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×