Erlent

Stjarna sýpur seyðið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Logan Paul, sem sést hér í skóginum með gulgræna húfu, hefur mátt þola harða gagnrýni eftir myndbandsbirtinguna.
Logan Paul, sem sést hér í skóginum með gulgræna húfu, hefur mátt þola harða gagnrýni eftir myndbandsbirtinguna. Skjáskot
Myndbandaveitan YouTube hefur lagt stein í götu hins bandaríska Logan Paul eftir að bloggarinn birti myndband af líki manns sem framið hafði sjálfsmorð. Logan var ein alvinsælasta Youtube-stjarnan en hefur átt í vök að verjast eftir myndbandsbirtinguna.

Til að bregðast við gagnrýninni hafa yfirmenn hjá Youtube ákveðið að takmarka möguleika hans til að öðlast auglýsingatekjur á síðunni. Að sögn breska ríkisútvarpsins mun bloggarinn ekki geta birt ný myndbönd á næstunni og þá verður dregið úr dreifingu á fyrri myndböndum hans.

Í hinu umdeilda myndbandi, sem Logan birti á gamlársdag, mátti sjá hann og félaga hans á gangi um skóg í Japan sem alræmdur er sem vettvangur sjálfsvíga. Þar gengu þeir fram á lík og mátti sjá að hópnum brá í brún. Engu að síður gerðu þeir grín að málinu.

Fjölmargir brugðust ævareiðir við, enda Logan einn vinsælasti bloggarinn á Youtube sem fyrr segir. Myndbandið var að endingu tekið út, eftir að milljónir höfðu barið það augum.

Lélegar afsakanir

Meðal þeirra sem gagnrýnu Logan var leikarinn Stefán Karl Stefánsson sem sagði að bloggarinn ætti að skammast sín.

Logan hefur síðan þá ítrekað beðist afsökunar á öllum miðlum en netverjum hefur lítið þótt til tilrauna hans koma. Hefur mörgum þótt afsökunarbeiðnirnar einkennast af sjálfhverfu og eftiráspeki.

Sjálfsmorðstíðni í Japan er ein sú hæsta í heimi. Í skóginum alræmda má víða finna skilti þar sem fólk er hvatt til að leita sér aðstoðar, hyggist það svipta sig lífi. Ekki er greint opinberlga frá fjölda sjálfsvíga í skóginum af ótta við að fleiri kunni að leita þangað til að fremja sjálfsmorð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×