Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur tímabundið lokað á alla umferð milli Venesúela og Karíbahafseyjanna Aruba, Bonaire og Curaçao.
New York Times greinir frá því að forsetinn hafi í sjónvarpsávarpi fullyrt að ólögleg viðskipti með málma og matvörur, sem hafi verið smyglað frá Venesúela, fari fram á eyjunum.
„Þeir taka gull frá þessu landi með ólöglegum hætti og gera það löglegt að selja þar. Þeir taka tantalmálm, þeir taka demanta, þeir taka alls konar matvörur,“ sagði Maduro í ávarpinu og hótaði að grípa til frekari aðgerða.
Eyjarnar sem um ræðir eru hollensk sjálfstjórnarsvæði, ekki langt frá ströndum Venesúela. Bannið nær bæði til siglinga og flugumferðar og gildir til að byrja með þrjá sólarhringa.
New York Times hefur áður greint frá því að margir þeirra 150 þúsund Venesúelabúa sem hafa flúið land á síðustu misserum hafi flúið um umræddar eyjar.
Venesúela glímir nú við mikla verðbólgu, fátækt og vöruskort.
Maduro stöðvar alla umferð til eyja

Tengdar fréttir

Maduro sakar Portúgal um skinkuskort
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hefur sakað Portúgal um að stolið jólunum af íbúum landsins.

Bannar stjórnarandstöðunni að bjóða fram
Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, segir að helstu stjórnarandstöðuflokkar landsins fái ekki að taka þátt í forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári.