Erlent

Ungabarn lést eftir alvarlega áverka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjúkraflutningamenn að störfum í Osló. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Sjúkraflutningamenn að störfum í Osló. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/EPA
Þriggja mánaða stúlkubarn sem flutt var alvarlega slasað á sjúkrahús í Osló í Noregi þann 27. desember síðastliðinn lést í gær. Faðir barnsins er grunaður um að hafa valdið dauða barnsins.

Voru þau ásamt fjölskyldu sinni í fríi í Osló yfir jólin en barnið var flutt alvarlega slasað á sjúkrahús eftir að fjölskyldumeðlimir höfðu hringt eftir aðstoð. Sjúkrahúsið lét lögregluyfirvöld vita af málinu eftir að útskýringar föðursins á áverkum barnsins þóttu ekki trúverðugar miðað þá áverka sem barnið hafði hlotið.

Var faðirinn handtekinn ásamt móður barnsins sem er þó ekki grunuð um að hafa átt þátt í dauða barnsins. Er faðirinn enn í haldi en í frétt Aftenposten segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að eldri áverkar hafi einnig fundist á barninu.

Barnið var með alvarlega heilaáverka þegar það var flutt á sjúkrahúsið í desember og segir lögregla að rannsókn málsins sé í hæsta forgangi.

„Svo gróft ofbeldi gagnvart varnarlausu ungabarni er mjög alvarlegt og rannsókn málsins er í hæsta forgangi hjá lögreglunni. Við munum rannsaka málið af fullum þunga,“ er haft Sturla Henriksbø hjá lögreglunni í Osló í fréttatilkynningu.

Eldri systkinum barnsins hefur verið komið fyrir í umsjá barnaverndaryfirvalda en lögreglan í Osló segir að rannsóknin beinist einkum að því hvort að barninu hafi verið beitt ofbeldi áður. Vonast lögregla til þess að eldri systkyni barnsins geti varpað ljósi á það, auk þess sem að lögreglan í Osló rannsakar málið í samvinnu við lögregluna í heimabæ fjölskyldunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×