Fótbolti

Kólumbíumaður er tekinn við fótboltalandsliði Síle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reinaldo Rued.
Reinaldo Rued. Vísir/Getty
Ísland er á leiðinni á HM í Rússlandi í sumar en þar verða ekki Suðurameríkumeistararnir frá Síle. Þeir hafa líka verið þjálfaralausir síðan að það varð ljóst í október. En ekki lengur.

Síle hefur leitað til Kólumbíumannsins Reinaldo Rueda og mun hann fá það verkefni að rífa landslið Síle upp eftir vonbrigðin í undankeppni HM 2018.





Það varð mörgum utan Síle mikil vonbrigði að stórstjörnur eins og þeir Alexis Sánchez og Arturo Vidal fái ekki að vera með á heimsmeistaramótinu í sumar. Heima fyrir er niðurstaðan líka mikið áfall fyrir lið sem hafði unnið tvær Suðurameríkukeppnir í röð.

Argentínumaðurinn Juan Antonio Pizzi hætti með landsliðið eftir undankeppnina en Pizzi hafði tekið við liði Síle af landa sínum Jorge Sampaoli árið 2016. Á undan þeim var enn einn Argentínumaðurinn í þjálfarastólnum eða sjálfur Marcelo Bielsa.

Argentínumaður hafði því þjálfað landslið Síle frá 2007 til 2017 eða í áratug. Nú færa Sílemenn sig frá Argentínu norður til Kólumbíu.

Reinaldo Rued fær samning fram yfir heimsmeistarakeppnina 2022 sem fer fram í Katar.

Reinaldo Rued er sextugur og var síðast þjálfari brasilíska stórliðsins Flamengo.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem hann tekur við starfi landsliðsþjálfara. Hann þjálfaði landslið Kólumbíu frá 2004 til 2006 og fór síðan með landslið Hondúras á HM 2010 og með landslið Ekvardor á HM 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×