Enski boltinn

Makélélé: Mourinho breytti okkur í sigurvegara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Claude Makélélé og Mourinho með Chelsea-liðinu á góðri stundu.
Claude Makélélé og Mourinho með Chelsea-liðinu á góðri stundu. vísir/getty
Claude Makélélé, fyrrverandi miðjumaður Chelsea, segir að José Mourinho hafi breytt leikmönnum liðsins við komu sína úr óöruggum leikmönnum í sigurvegara.

Mourinho kom fyrst til Chelsea árið 2004 eftir að gera Porto að Evrópumeistara en franski miðjumaðurinn var þá búinn að vera í eitt ár á Brúnni.

Chelsea var ekki búið að vinna titil í fjögur ár áður en Mourinho mætti en hann vann deildina á fyrsta og öðru ári sem knattspyrnustjóri Chelsea-liðsins.

„Þegar ég mætti fyrst til Chelsea sá ég hluti sem komu mér á óvart. Við mættum oft stórliðum eins og Manchester United og Arsenal og alltaf var talað um að leikir á móti þeim væru erfiðir,“ segir Makélélé í viðtali við The Sun.

„Ha? Getum við ekki unnið Arsenal? Samherjar mínir voru óöruggir og það sjokkeraði mig. Þegar ég upplifði þetta vildi ég breyta hugarfarinu. Við breyttum hugarfarinu saman og eftir það unnum við þessi lið oft og börðumst um Englandsmeistaratitilinn.“

„Ég lærði mikið af Mourinho. Hann fékk mig til að skilja fótbolta á öðruvísi hátt. Fótbolti er ekki bara hamingja. Hann fær mann til að skilja þátt samfélagsins, styrktaraðilanna, stuðningsmannanna og fjölmiðlanna. Hann pælir í öllum smáatriðum,“ segir Claude Makélélé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×