Þetta sagði Trump við blaðamenn um borð í forsetaflugvélinni Air Force 1 á leið sinni á kosningafund í Kansas að því er Reuters greinir frá. Í kvöld staðfesti öldungadeild Bandaríkjaþings skipan Kavanaughs í embætti dómara við Hæstarétt.
Það var afar mjótt á mununum í atkvæðagreiðslunni en 50 greiddu atkvæði með staðfestingu Kavanaughs gegn 48.
„Þetta er ein af ástæðum þess að ég útnefndi hann því það er enginn með eins tandurhreina fortíð og Brett Kavanaugh. Hann er framúskarandi manneskja og það er mér mikill heiður að hafa valið hann,“ sagði Trump við blaðamenn.

Sálfræðiprófessorinn Ford greindi frá því að Kavanaugh hefði brotið á sér þegar þau voru unglingar í húsi í úthverfi Washington árið 1982.
Trump fagnaði niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar óskaði Kavanaugh til hamingju á Twitter síðu sinni eftir að niðurstaðan var gerð opinber. Hann sagði að Kavanaugh yrði svarinn í embætti á næstu klukkutímum og bætti við að þetta væri allt saman afar spennandi.