Fótbolti

Gylfi æfir með liðinu eftir örfáa daga: "Er á mjög fínum stað“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór er byrjaður að leika boltalistir að nýju
Gylfi Þór er byrjaður að leika boltalistir að nýju Vísir/Vilhelm
Ástandið á Gylfa Þór Sigurðssyni er „bara fínt,“ og mun hann byrja að æfa með íslenska landsliðinu innan tveggja, þriggja daga. Þetta sagði miðjumaðurinn knái í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í dag á æfingu íslenska liðsins.

Gylfi Þór meiddist eins og alþjóð veit í leik með Brighton fyrr í vetur. Hann segir endurhæfinguna ganga vel.

„Það er vika, tvær vikur síðan ég byrjaði að sparka í bolta. Ég er byrjaður að skjóta núna sem er mjög góð tilfinning. Búinn að vera langur tími en ég er byrjaður að gera flest; hoppa, hlaupa og taka snúninga,“ sagði Gylfi Þór.

„Fyrsta daginn eftir meiðslin þá hélt ég að HM væri í hættu, ég gat ekki hreyft hnéð. Síðan gekk þetta mjög vel áður en það kom smá bakslag, var vökvi í hnénu sem þurfti að taka úr og það setti mig aftur um eina til tvær vikur, en ég er á mjög fínum stað núna.“

„Það mikilvægasta sem við erum búnir að gera síðustu vikur er að vera ekkert að flýta okkur. Við höfum nægan tíma, ég er að koma á réttum tíma. Það er engin ástæða fyrir því að vera að flýta sér í æfingar eða fyrsta leik á móti Noreg, málið er að ég þarf að vera heill og klár þegar við mætum til Rússlands.“

Ísland á vináttulandsleiki við Noreg og Gana þann 2. og 7. júní á Laugardalsvelli áður en liðið heldur til Rússlands. Stefnir Gylfi á að spila í þeim leikjum?

„Planið er að fá nokkrar mínútur þar. Hversu margar fer eftir því hvernig æfingarnar ganga á næstu dögum og hvernig hnéð tekur því,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×