30 manna hópur á vegum samtaka herandstæðinga er nú í rútu á leiðinni í menningarferð í Þjórsárdal þar sem ætlunin er að fræðast um söguslóðir svæðisins. Á sama tíma í dag mun eiga sér stað skipulögð heræfing Atlantshafsbandalagsins.
Formaður samtakanna segir að um tilviljun sé að ræða en samtökin hafa ákveðið að nýta ferðina einnig til mótmæla. „Við ákváðum að kippa einhverjum skilaboðum með fyrst við verðum á svæðnu. Ætli við reynum ekki að láta heyra aðeins í okkur. Ísland er mjög friðsamt land og við viljum ekki sjá hermenn hér á reiki um íslenskar sveitir,“ segir Guttormur Þorsteinsson, formaður samtaka hernaðarandstæðinga.
Þá segir hann samtökin ekki hrifin af heræfingunni.
„Við erum ekki hrifin af þessari heræfingu. Þessi hervæðing norðurslóða er áhyggjuefni. Það er verið að ögra Rússum og er þetta mjög uggvænleg þróun,“ segir Guttormur.