Yfirvöld í Belgíu segja að fjórir hafi verið handteknir eftir að vopn fundust við húsleitir í Brussel í nótt. Lögreglan leitaði í fjórum heimilum og í tveimur bílskúrum. Á einu heimili í Anderlecht-hverfi borgarinnar fundust meðal annars Kalashnikov árásarrifflar, skotheld vesti og skotfæri.
Húsleitirnar voru gerðar vegna hryðjuverkarannsóknar, en saksóknarar segja, samkvæmt Reuters, að rannsóknin snúi ekki að árásum ISIS-liða í París í nóvember 2015 og í Brussel í byrjun árs 2016.
Þá voru 37 grunaðir meðlimir Íslamska ríkisins handteknir í Tyrklandi í nótt. Einn þeirra er sagður hafa verið með rúm fimm kíló af sprengiefnum á sér þegar hann var handtekinn nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands.
Samkvæmt frétt Reuters hafa Tyrkir handtekið rúmlega fimm þúsund grunaða meðlimi ISIS á undanförnum árum. 3.290 erlendir vígamenn hafa verið framseldir til 95 ríkja og 39.269 einstaklingum hefur verið neitað að koma til Tyrklands.

