„Nú er þetta að klárast og völdin komin úr okkar höndum. Nú þurfum við að bíða og sjá hvernig við uppskerum. Ég geri það bara af rósemd og æðruleysi,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi mætti á kjörstað í Verkmenntaskólanum á Akureyri klukkan 10:30 í morgun.
Logi segir kosningabaráttuna hafa verið snarpa og markast af því hvað tíminn hafi verið stuttur. „Hún hefur að mestu leyti farið vel fram. Það eru þó nýir neikvæðir þættir sem birtast okkur núna með samfélagsmiðlunum – þessar kostuðu, nafnlausu áróðurssíður sem að gera út á lygi, hálfsannleik og dylgjur. Mér finnst þetta ljótur blettur og ég held að flokkarnir ættu að taka sig saman eftir kosningar og frábiðja sér allri svona „hjálp“,“ segir Logi.
Hann segist hlakka til kvöldsins en að hann sé núna svolítið „inni í sér“. „Ég er líka kvíðinn, en það er bara eins og það á að vera,“ segir Logi, formaður Samfylkingarinnar.
Logi: Bíður niðurstöðunnar með rósemd og æðruleysi
Atli Ísleifsson skrifar
