
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði, leggur áherslu á að sérsveitin hafi ekki misnotað vopn. „Ef við skoðum söguna í þessu þá hefur lögreglan ekkert beitt vopnum frá upphafi. Þetta er eitt skipti sem þeir hafa gripið til vopna þannig að þeir hafa beitt þessu af hógværð,“ segir Helgi. Hann vísar þar í atvik í Hraunbæ árið 2013.
Hann leggur áherslu á að lögreglan hafi ekki ofnotað eða misnotað vopn. „Eða að upp komi tilfelli sem hafa orðið að dómsmáli eða þar sem menn hafa séð lögregluna fara offari. Við erum ekki að sjá tilfelli af því tagi. Maður hugsar til tilfella í Bandaríkjunum og að einhverju leyti í Evrópu en ekki hérna hjá okkur. Þeir virðast hafa sýnt ábyrgð og fagmennsku í verki,“ segir Helgi og bætir við að þjálfun sérsveitarmanna sé mikil. Ekki bara í upphafi heldur sé þjálfunin stöðug.