Bandaríski rithöfundurinn Robert Spencer segir að læknirinn sem rannsakaði hann hér á landi á Landspítalanum eftir meinta eitrunartilraun hafi sýnt sér dónaskap og reynt að gera lítið úr atvikinu.
Þetta kemur fram í viðtali við Spencer á hinni umdeildu fréttasíðu Breitbart þar sem fjallað er um fullyrðingar Spencer um ungur íslendingur hafi eitrað fyrir honum.
Spencer er þekktur fyrir harðskeytt skrif sín um íslam og hefur gefið út fjölda bóka þar sem hann varar við „íslamsvæðingu“ Vesturheims og hættunni sem hann telur stafa af múslimum. Hélt hann fyrirlestur þess efnis á Grand Hótel á dögunum.
Eftir fundinn hefur Spencer haldið því fram að eitrað hafi verið fyrir sér og birti DV læknaskýrslu þar sem kom fram að í blóði Spencer hafi fundist merki um MDMA og amfetamín. Hann segir að læknirinn sem tók á móti honum á Landspítalanum hafi hins vegar reynt að gera lítið úr atvikinu.
„Hann var frekar óvingjarnlegur, ókurteis,“ segir Spencer í viðtali við Breitbart. „Hann reyndi að gera lítið úr því hvað hafði gerst.“
Lét læknirinn Spencer vita að merki um lyfið Ritalín hefði fundist í blóði hans. Spencer hafi þó fundist það óvenjulegt enda notaði hann ekki Ritalín.
Segir hann að læknirinn hafi efast um það og raunar aldrei minnst á það að MDMA og amfetamín hafi fundist í blóði Spencer. Hann hafi ekki komist að því fyrr en mun seinna þegar hann fékk að líta á læknaskýrsluna.
Segir Spencer einnig að læknirinn hafi reynt að gera lítið úr eitruninni og fremur eytt púðri í að fá Spencer til þess að hætta harðskeyttum skrifum sínum um Íslam.
Lögregla er með málið til rannsóknar en Spencer hefur sagt að ungur karlmaður hafi eitrað fyrir sér.
