Fótbolti

Sergio Agüero: „Ísland er með Gylfa Sigurðsson“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City.
Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City. vísir/getty
Sergio Agüero, markahæsti leikmaður Manchester City og þriðji markahæsti leikmaður í sögu argentínska landsliðsins, segist ekki vanmeta íslenska landsliðið.

Ísland er í D-riðli á HM 2018 í Rússlandi ásamt Argentínu, Nígeríu og Króatíu sem er dauðariðilinn á mótinu. Argentína er líklegast til að vinna riðilinn en Agüero varast mótherjana.

Hann lítur á fyrstu tvo leikina á móti Íslandi og Króatíu á lykilleiki fyrir Argentínu ef það ætlar upp úr riðli.

„Mótherjar okkar eru ekki auðveldir. Ísland er eitt af nýliðunum en það er gott lið sem er mjög skipulagt. Það er líka með Gylfa Sigurðsson sem er maðurinn sem stýrir spilinu. Fyrstu tveir leikirnir eru mikilvægastir fyrir okkur og þeir verða ekki auðveldir,“ segir Sergio Agüero í viðtali við Doblea Marilla.

Argentína fór í úrslitin á HM 2014 en tapaði, 1-0, fyrir Þýskalandi í framlengdum leik. Argentína hefur unnið HM tvisvar sinnum, síðast árið 1986. Það hafði ekki komist lengra en í átta liða úrslitin síðan 1990 áður en kom að úrslitaleiknum í Brasilíu fyrir þremur árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×