Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að heppnin hefði ekki verið með sínum mönnum í liði gegn Southampton í kvöld.
Dýrlingarnir unnu leikinn 0-1 og eru komnir á Wembley þar sem þeir mæta annað hvort Manchester United eða Hull City í úrslitaleik enska deildarbikarsins.
„Þeir unnu báða leikina og áttu þetta skilið,“ sagði Klopp eftir leikinn í kvöld.
„Við gerðum mjög vel. Það er ekki hægt að skapa fleiri færi en við gerðum í seinni hálfleik, við höfðum yfirburði. Þetta var erfitt því við þurftum að taka áhættu og það hentaði þeim. Við fengum góð færi en heppnin var ekki með okkur í liði. Dómarinn sá ekki hendina hjá [Shane] Long og það hjálpar ekki til. Ég er ánægður með frammistöðuna en ekki úrslitin.“
Klopp segir að dómgæslan hafi verið Liverpool óhagstæð í vetur.
„Það væri ánægjulegt að heyra dómarann flauta. Ég veit ekki hversu oft þetta hefur gerst á tímabilinu. Man Utd skoraði rangstöðumark, enginn sagði neitt. Í kvöld áttum við að fá víti, enginn sagði neitt,“ sagði Klopp ósáttur.
Klopp: Heppnin var ekki með okkur

Tengdar fréttir

Southampton á Wembley í fyrsta sinn í 38 ár | Sjáðu markið
Southampton er komið í úrslit enska deildarbikarsins í fyrsta sinn í 38 ár eftir 0-1 sigur á Liverpool á Anfield í kvöld. Shane Long skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma.

Klopp: Coutinho getur látið drauma sína rætast hjá okkur
Segir að það sé mikil og stór yfirlýsing að Philippe Coutinho hafi ákveðið að gera nýjan samning við Liverpool.

Coutinho orðinn launahæstur eftir nýjan fimm ára samning
Stórtíðindi fyrir stuðningsmenn Liverpool en einn besti leikmaður liðsins gerði risasamning við félagið.