Nýliðar Newcastle unnu annan leik sinn í röð í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið vann 1-0 sigur á Swansea á Liberty-vellinum en Jamaal Lascelles skoraði eina mark leiksins með skalla í seinni hálfleik.
Renato Sanches kom inn í lið Swansea í fyrsta sinn en Wilfried Bony tók sér sæti á bekknum hjá heimamönnum sem komu inn í leikinn eftir að hafa unnið fyrsta leik tímabilsins á síðasta ári.
Eins og fjallað var um á Vísi í dag var Rafa Benitez, knattspyrnustjóri Newcastle, ekki með liðinu í dag en hann er að ná sér eftir aðgerð á dögunum.
Staðan var markalaus í hálfleik eftir jafnan fyrri hálfleik en Lascelles kom Newcastle yfir með eina marki leiksins eftir hornspyrnu Matt Ritchie á 76. mínútu leiksins.
Með sigrinum skaust Newcastle upp í 10. sæti deildarinnar en Swansea er í 15. sæti deildarinnar með fjögur stig að fjórum umferðum loknum.