Erlent

Rússneski Kommúnistaflokkurinn teflir fram nær óþekktum frambjóðanda gegn Pútín

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Pavel Grudinin mun etja kappi við sitjandi Rússlandsforseta þegar þjóðin gengur til kosninga í mars á næsta ári.
Pavel Grudinin mun etja kappi við sitjandi Rússlandsforseta þegar þjóðin gengur til kosninga í mars á næsta ári. Visir/afp
Flokksmenn rússneska Kommúnistaflokksins hættu við að tefla fram Gennady Zyuganov til höfuðs Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Í hans stað útnefndi flokkurinn hinn fimmtíu og sjö ára gamla vélaverkfræðing Pavel Grudinin.

Reuters greinir frá því að útspilið komi mjög á óvart því líklegast þótti að forsetaefni flokksins yrði Zyuganov. Kommúnistaflokkurinn hefur áður útnefnt hann fimm sinnum. Zyuganov er fyrrum hermaður og er sjötíu og þriggja ára gamall.

Grudinin er ekki þekkt andlit í Rússlandi en auk þess að vera vélaverkfræðingur hefur hann rekið bú í útjaðri Moskvu frá því á miðjum tíunda áratugnum.

Með því að horfa fram hjá Zyuganov og tefla fram Grudinin virðist Kommúnistaflokkurinn vera að segja skilið við íhaldsarm stjórnmálahreyfingarinnar. Álitsgjafar telja útspilið til marks um tilraun Kommúnistaflokksins til að ná til breiðari hóps því mælingar sýna að kjósendur flokksins hafa miklum meirihluta verið eldra fólk.

Sameinað Rússland, flokkur Pútíns, hefur lýst yfir fullum stuðningi við sitjandi forseta.

Rússar ganga til kosninga í mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×